þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Köben og prufuspil

Það var auðvitað mjög gaman að koma til Köben og fá að spila með DRSO. Ég verð samt að segja að það á betur við mig að spila í kammerhópum. Ég þarf einfaldlega frelsið í minni spilamennsku. Mér leið eins og ég væri alltaf að synda í leðju þegar við vorum að spila Wagner.

Hvað varðar prufuspilið þá fór það á besta veg. Ég ákvað að gefa allt í og gefa skít í tæknilega fullkomnun. Það var annar gaur sem var í prufuspilinu líka og hann tók hinn pólinn, tók safe leiðina. Dómnefndin þurfti u.þ.b. klukkutíma til að komast að niðurstöðu og á endanum tóku þau hinn gaurinn og mér varð ótrúlega létt. Þeim mun meira sem þetta prufuspil nálgaðist fann ég að þetta væri ekki það sem ég vildi. Mig langar bara engan veginn að fara frá Berlín og Kaleidoskop til að búa í krummaskuði í gamaldags þenkjandi smábæjarhljómsveit.

Ég talaði við fólk úr dómnefndinni eftir á og fékk þá að vita að þetta hafi verið frekar erfið ákvörðun þar sem við vorum mjög ólíkir spilarar og dómnefndin skiptist alveg í tvennt með þetta. Á tímapunkti voru þau að spá í að gefa okkur báðum sitt hvort tímabilið á prufu en ég er bara ótrúlega feginn að þau tóku bara hinn. Ég nenni ekki að eyða meira púðri í þessa stöðu. Nú er ég bara kominn til baka til Berlínar og er að fara á æfingu með Kaleidoskop og elska lífið!

Engin ummæli: