þriðjudagur, maí 02, 2006

Að vera eða ekki að vera list

Þegar maður nær tökum á einhverju einu nær maður tökum á heilum helling í leiðinni, þess vegna koma framfarir í skrefum, þá er ég að tala um kunnáttu. Þetta virðist vera eins að farið með vitneskju, þegar ég hef áttað mig á einhverju nýju hvort sem það er bláköld staðreynd eða fílósófísk kenning þá myndast í höfði mér margfalt fleiri hugmyndir eða svör við áður ósvöruðum spurningum. En það áhugaverða er að án vitneskju er lítil sem engin kunnátta og öfugt. Því meira sem ég læri þeim mun betri tónlistarmaður er ég og þeim mun betri tónlistarmaður sem ég er þeim mun meira sækist ég í vitneskju.

Þess vegna hafa menntaðir meiri skilning og áhuga á list. Þeir sem eru meira menntaðir hafa yfirleitt hærri tekjur og þar með er auðvelt að setja stimpilinn SNOBBARI á þá sem sækja listaviðburði. Þessu þarf að breyta og það er bara ein leið til þess...mennta lýðinn!

Ég man eftir mörgum af mörgum fundum mínum með Hafnfirsku klíkunni í gamla daga á Súfirstanum í Hafnarfirði. En einum fundi skal sagt frá hér. Spurningunni "hvað er list?" var varpað og allir dæstu. (ath. ég varpaði ekki fram spurningunni) Ég ákvað að reyna að svara, kom með ýmis rök en alltaf var hægt að skjóta þau í kaf. Ég ætla að koma með aðra tilraun til að svara.

List er:
Þegar innblásin manneskja skapar eitthvað til að aðrir geti innblásist. Listamaðurinn skapar listina í fullkominni einlægni og samræmi við sjálfan sig.

Þá er spurt, hve mikilvægt er handverkið?
Handverkið er ótrúlega mikilvægt og ég held að ef einhver vill snerta við öðru fólki í gegnum list og er innblásinn, en hefur ekkert vald á handbragðinu muni útkoman ekki snerta einn né neinn. Handverkið hins vegar er ekki list eitt og sér.

Það er líka mikill munur á skemmtana gildi og listrænu gildi. Ef einhver kúkar á götuna í "listrænum tilgangi" en hafði raun ekkert að segja með því, bara smá sjokk element þá er það ekki list, það er skemmtun. Þannig að þótt eitthvað snerti mann þá má ekki gleyma að skemmtun er ekki list, en það er auðvelt að rugla þessu tvennu saman. Því skemmtun snertir mann á einhvern hátt líka án þess að skilja eftir ör.

Það sem er auðvitað best er að list hafi skemmtanagildi. Þess vegna er svo erfitt að flokka þetta allt saman.

Auðvitað er engin þörf á svona flokkun, vildi bara gera tilraun til þess. Nú megið þið skjóta mig í kaf ef þið viljið. En ég þarf ekkert á kommentum að halda, vildi bara skrifa smá ritgerð sjálfs míns vegna.

Engin ummæli: