Gagnrýni Jónasar var frekar meira neikvæð en jákvæð. Hann vantar ekki húmorinn því gagnrýnin heitir Tónlist án afruglara. Það finnst mér svoldið hart þegar um áhugamannasveit er að ræða. Eiginlega skil ég ekki alveg afhverju áhugamannasveitin er gagnrýnd en það er ekki mitt að velja.
Hann segir mig hafa spilað varfærnislega og ekki alltaf hreint, sérstaklega í byrjun. Það er nú bara dagsatt að ég spilaði svoldið óhreint í upphafi, ég var líka mjög óánægður með fyrstu mínúturnar en ég er ekki viss um að ég hafi nokkurtíma verið að spila varfærnislega, kannski, maður man þetta ekki almennilega því maður er í öðrum heimi þegar maður spilar. Fyrir utan byrjunina held ég mig hafa spilað mest allt mjög hreint. Var að fá senda upptökuna, þori ekki að hlusta alveg strax.
Honum fannst hlaup óskýr og því hefði mátt magna bassann upp. En að mínu mati verður hljómsveitin bara að spila veikar því soundið í uppmögnuðu strengjahljóðfæri er ömurlegt, þá myndi ég nú bara geta sleppt þessu.
Hann var ekki viss hver var að fylgja hverjum (Hljómsveit vs. Einleikari) og að við höfum ekki verið nægilega samtaka. Það er náttúrulega bara mjög erfitt að gera það vel í þessum aðstæðum. Ég man allavega eftir stað þar sem ég vissi ekki einu sinni hvað var að gerast í hljómsveitinni og hélt þá bara ótrauður áfram. En ekki það að ég skelli skuldinni á hljómsveitina, ég er auðvitað enginn reyndur einleikari.
Hann segir þó að ég hafi prýðilega hæfileika og spilað af innlifun en vanti meiri reynslu í að spila með hljómsveit (sem einleikari).
Það sem mér finnst gott við þessa gagnrýni er að hann sættir sig ekki neitt sem miður fer, ekkert blaður um að bassinn sé erfitt hljóðfæri og svoleiðis afsakanir. Ég var búinn að sætta mig við að ég hafi byrjað illa, en í raun verður maður að hugsa fram á við og reyna að gera betur næst. Því ef maður fær svona gagnrýni í hvert skipti sem maður spilar (meira nei en já) þá hlýtur fólk að missa trúna á mér og kontrabassanum.
Eina þversögn er þó að finna í gagnrýninni sem ég skil ekki. Ég spyr hvernig spilar maður af innlifun ef maður er að spila varfærnislega? Því ég held að það sé í raun það eina sem ég er ósáttur við skrifin, mér fannst ég í raun ekki spila varfærnislega. Kannski skil ég bara ekki hvaða merking felst í orðinu.
Jæja, gaman að'essu! Nú er bara að reyna að fá fleiri gigg sem einleikari með hljómsveit og halda ótrauður áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli