þriðjudagur, mars 16, 2004

Mont Blanc Part II

Á sunnudeginum, fórum við með hundana í bíltúr/göngutúr í nágrannaþorp sem er mikið túristasvæði (skíðasvæði). Það verður að viðurkennast að verslunargöturnar þar eru meira sjarmerandi en Strikið. Allar búðirnar voru lítil hús úr við, ekta gamaldags kofar. Þar ráfaði um fjöldinn allur af fólki í skíðaskóm með skíði á öxlinni.

Það gleymdist að segja að hjá þeim hjónum var annar bassaleikari / kennari. Hann talaði enga ensku og voru því samskipti okkar lítil og aðeins í gegnum bogasmiðinn. Á hans hljóðfæri prófaði ég bogann. Það var alltaf gaman að hlusta á þá kappana tala (á frönsku) því þótt ég skildi ekki orð þá voru svo skýr tjáningamerki í andliti og handapati. Það gerði allt þeirra spjall áhugavert. Þessi bassakennari spilar í Óperunni í Lyon og er með 40 nemendur. Hörkugæi.

Það sem ég lærði í þessari ferð er 1.hvernig bogi er gerður 2.hvað frakkar borða 3.hvað frakkar borða lengi (2 tíma hver máltíð) 4.að frakkar eru sídrekkandi vín en aldrei fullir, vín með öllum mat og fordrykkur. 5. að frakkar myndu aldrei drekka hvítvín með kjöti, það gengur bara ekki upp. 6.að frönsk sveitasæla er draumalíf.

Það kom mér á óvart í þorpsveislunni að þótt þetta væri veisla þá drakk enginn meira en eitt glas af fordrykknum og eitt til tvö af víni með matnum. Á Íslandi hefði vínið ekki dugað og allir endað á barnum.

Á sunnudeginum fór ég reglulega inn í vinnuherbergi smiðsins til að halda á boganum mínum. Bassaleikarinn var farinn og þ.a.l. bassinn. Ég gat því bara haldið á boganum til að finna þyngd og balanca....en hvílíkt sem ég naut þess. Þetta er draumaboginn minn, as good as it gets.

fin part 2

Engin ummæli: