þriðjudagur, mars 23, 2004

Hvað gerist kl.10:00 á morgunn?

Ég er svo spenntur því á morgunn kemur boginn minn. Ég gat ekki tekið hann með frá Frakklandi því það átti eftir að fínpússa og lakka hann og lakkið þarf sinn tíma til að þorna. Ég er búinn að segja öllum bassavinum mínum frá boganum eins og þetta sé engill sem muni bjarga okkur öllum frá glötun....hmm! ég vona að boginn standist væntingar þeirra.

Næstu daga ætla ég að láta reyna á æfingatækni Víkings og skipta deginum niður í þrjá 2 klst. æfingabúta, kannski þó að morgnanir verði 3-4 tímar því það er auðvelt að nýta þá vel. Ég er bara hræddur um að með þessu kerfi verði ekki tími fyrir neitt annað því maður er alltaf að fara upp í skóla að æfa sig. Ég hata skólann minn, það er að segja umhverfið. Hann er svo grámyglulegur, og maður er alltaf í vetrarþunglyndi þar inni þótt sólin skíni og hitinn sé yfir 18°c. Þannig að þegar ég er ekki að æfa mig verð ég að fara eitthvað annað.

Kannski, með þessu kerfi hef ég tíma til að lesa, ég á svo mikið af bókum sem ég á eftir að lesa. Tonn af bókum um tónskáld og alls kyns aðrar bækur. Annars finnst mér ég oft verða fyrir vonbrigðum með tónskáldabækur. Þær eru oft þurrar og leiðinlegar. Ekki tónskáldinu að kenna, rithöfundarnir eiga það til að verða of vísindalegir. Skemmtilegast finnst mér að lesa erlendar skáldsögur eftir heimspekilega þenkjandi rithöfunda....uppáhaldið mitt er Milan Kundera.

Spurning! Hvaða ljóðabálkur hefst á ljóðinu Gute nacht og hver samdi tónlist við þennann ljóðabálk?

Engin ummæli: