sunnudagur, mars 28, 2004

Kór

Þá er maður farinn að leyfa röddinni að njóta sín. Í fyrsta sinn á ævinni (27ár) söng ég í kór í gær. Forsagan er sú að Jóhannes nokkur sem er tiltölulega nýfluttur til Danmerkur vildi æstur stofna íslendingakór sem væri samansettur af annars vegar reynsluhundum og hins vegar tónlistarmenntuðu fólki. Þetta myndi auðvelda æfingar því fólk gæti undirbúið sig heima í stað þess að eyða æfingatímanum í að spila raddirnar í gegn á píanói og hamra þær inn í fólk. Þetta var nú bara þónokkuð skemmtilegt en ég syng bassa þótt ég sé að vísu mjög mikið mitt á milli bassa og tenórs í raddsviði.

Það merkilegasta er þó að þegar Jóhannes hringdi í mig var ég pínu efins þar sem ég hafði aldrei sungið í kór áður og var eiginlega pínu smeykur við að hella mér út í aukastarfsemi....það endaði þannig að ég er í stjórn og ég held að það sé óhætt að segja að óvart sé ég orðinn ómissandi til að þetta gangi. Ég ætlaði mér nú alls ekki að verða drifkrafturi kórsins, það átti hann Jóhannes að vera, en ég nenni bara engu hálfkáki og þannig leit þetta út á kafla...ég tók þetta því að mér.

Ég nenni heldur ekki að vera meðalmaður...best að fara að æfa sig!

Engin ummæli: