Núna er:
- laugardagskvöld, næstum nótt.
- Hildur á Íslendinga-þorrablóti með kirkjukórnum sem hún er nýlega farin að syngja í
- ég að hlusta á Mahler sinfoníu númer 1
- ég nýbúinn að horfa á Jerry Maguire sem ég hafði ekki séð áður og mér fannst hún góð
- ég að hugsa
Hvað er að? Það er alltaf það sama. Lífið er alltaf eins, meira að segja þegar ég verð 60 ára mun ég hafa reynslu og finnast hugsanir tæplega þrítugs sonar míns barnalegar. Þegar hann verður sextugur mun honum finnast það sama um sinn son. Alltaf þurfa allir að ganga í gegnum sama bullið og pælingarnar. Samt er eitt sem varíerar, það er persónuleiki hvers og eins. Hvernig væri að vera frumlegur og gera eitthvað allt annað. Finna nýjan vinkil á heimsspeki...eða bara ekki?
Sá nýja mynd með Woody Allen um daginn, (Anything else) snilld...einmitt þetta með aldur og reynslu sem var mikið til umræðu í þeirri mynd. Hvað myndi ég gera án Woody's? Meðan hann lifir þarf ég ekki að hugsa, bara fara í bíó einu sinni á ári.
Ég veit ekki afhverju en ég hef svo mikla þörf fyrir að öskra og skapa en ég hef bara samt þannig þörf. Einu sinni þegar ég og vinur minn...(við skulum bara kalla hann leyninafninu Guðjón Ingi Guðjónsson) vorum að læra fyrir próf fórum við út að hlaupa og öskruðum úr okkur lungun á meðan. Það var ein besta útrás sem ég hef fengið. Mig langar í aðra svoleiðis.
Alltaf þegar ég hef séð góða mynd eða lesið góða bók langar mig að skrifa bók sjálfur en ég er svo hræddur við það því hún myndi fjalla um mig og öll mín myrkustu leyndarmál. Það eru margir sem halda að venjulegt fólk eins og ég eigi ekki slík leyndarmál en samt á ég leyndarmál sem að minnsta kosti ég hef ekki áhuga á að deila með heiminum núna. Ég er ekki að tala um eiturlyfjaneyslu eða neitt rugl svona til að róa mömmu ef hún er að lesa þetta..sem ég veit að hún gerir. Það er auðvitað annar hluti sem kemur líka í veg fyrir að ég mun aldrei eða líklegast aldrei skrifa bók, ég hef enga tækni eða orðaforða í það.
Allavega er þessi ótrúlega sterka sköpunarþörf í mér, það er líka þess vegna sem ég hef gaman að heimasíðugerð, það er ekki struktúrinn sem heillar mig eða þessi praktíski hluti heldur hönnunin.
Nú eins og alltaf geng ég í gegnum erfitt tímabil í bassaleik mínum. Ég á stöðugt við einhver vandamál að stríða og það tekur alltaf mis langan tíma að leysa þau. Núna er ég svo ótrúlega búinn að fá nóg af ákveðnum vandamálum að ég bara verð að taka þau fyrir og útrýma þeim. Það kemur alltaf svona tímabil hjá mér, þar sem ég fæ nóg. Þá tek ég vandamálin og æfi mig út úr þeim. Það jákvæða við þetta vandamál er að þegar það er leyst þá er spilamennska mín algerlega komin upp um eitt eða tvö "level" ef það má orða það svo. Ég hef örugglega í mínum mælieiningum farið upp um svona 4-5 level síðan ég byrjaði í konservatoríinu og mér finnst ég hafa tekið mjög miklum framförum. Þannig að hvert level í mínum huga gerir þónokkurn mun.
En það er eitt vandamál sem ég get ekki leyst, ég er bara mennskur, og stundum of mennskur...ég er fólk
Það er til fólk sem kann að njóta lífsins og nennir ekki að hugsa of mikið um tilgang lífsins.
Það er til fólk sem nennir ekki að reyna á sig til að ná markmiðum.
Það er til fólk sem setur sér lág markmið til að ná þeim örugglega alltaf.
Það er til fólk sem er svo hæfileikaríkt í sínu fagi að það þarf að hafa miklu minna fyrir því en margir kollegar sínir.
Það er til fólk sem er ekki eins hæfileikaríkt en sættir sig við að ná styttra.
Það er til fólk sem nær jafn langt og hæfileikaríka fólkið af því það er svo þrjóskt og setur sér jafn há markmið og snillingarnir. Þetta fólk fær ógeð á göllunum sínum þegar það er búið að taka eftir þeim í ákveðið langan tíma, tekur þessa galla og treður þeim upp í ((&%(&/%$ á skapara heimsins.
Við neitum að gefast upp, við töpum ekki, við erum sigurvegarar!
AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARRRRRRRRRRGGGGG!!!!!!!!!!!!!
Hvers virði eru allar hugsanir og heimspekilegar umræður ef tilfinningar manns eru bældar?
Í gær var ég í hóptíma og ég varð svo fúll út í kennarann minn. Í fyrsta sinn í tvö og hálft ár varð ég fúll á móti. Djöfull fékk ég nóg, mælirinn fylltist algerlega. Hann talar alltaf við mig eins og ég sé ekki að skilja tónlist þegar vandamálið er í raun að ég er ekki ennþá búinn að læra muninn á því hvernig það hljómar sem ég er að gera þegar maður situr fyrir aftan hljóðfærið sitt og sem áhorfandi nokkra metra frá því. Ég er sko alltaf að frasera en greinilega ekki nægilega skýrt til að það heyrist en hann mæstró Stadnicki talar eins og ég hefi ekki músíkalska hugmynd sjálfur. Ég varð bara fúll og sýndi honum það skýrt og greinilega. Eftir tímann baðst ég afsökunar en hann sagði að það væri ekkert að afsaka, hann væri bara glaður að ég hefði tilfinningar og að þetta væru eðlileg viðbrögð. Málið með mig er að út af einhverju hleypi ég ekki sumu fólki inn á tilfinningar mínar...(guð hvað það er gott að skrifa um tilfinningar með Mahler á fóninum, og heimspeki, algerlega viðeigandi).
Ætli það sé ekki út af þessari tilfinningabælingu sem ég hef sköpunarþörf....en ég hef bara ekki fengið útrás fyrir henni. Ekki nóg. En ég er að reyna að bæta úr því með ýmsu. Vil ekkert segja meira um það strax.
Jæja! Það var stuð að bauna á ykkur þessari netlu, megi hún lifa í minningu ykkar svo lengi sem þið lifið. Mahler sinfónían var að klárast, það tók mig sem sagt um klst. að skrifa þetta....tíminn líður hratt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli