Gleðilegt ár allir. Nú er jólafríið búið og það var gott. Það var enginn bassi, bara frí. Það var að vísu aðeins of langt frí án hljóðfæris. Þrem tímum eftir lendingu hér í Köben var svo æfing sem ég var engan veginn undirbúinn undir eftir bassalaus jól. En nú er þetta á réttri leið.
Nú er ég aftur byrjaður á hollari lífstíl, hugmyndin er að minnka sykur, hreyfa sig og borða hollt. Til að byrja með ætla ég ekki að borða nammi eða önnur sætindi annann hvern dag og fjölga svo smám saman nammilausum dögum þar til laugardagar verða einu nammidagarnir. Í dag fórum við Hildur í fitness center og ætluðum að fá að prófa og jafnvel kaupa kort í stöðinni en eins og allt í Danmörku þá tekur þetta tíma. Ég þurfti sem sagt að panta prufutíma og fer fyrst á mánudaginn að hreyfa mig. En mikið hlakka ég til þar sem hreyfing skapar vellíðan sem mig vantar núna. Stundum fær maður bara ógeð á hreyfingaleysi. En þegar allt kemur til alls þá er þetta átak mitt aðalega til að verða orkumeiri.
Nú er fullt að gera aftur, óperuverkefni (Britten ópera), tvö nútímaverk (1. fagott, tölva og bassi - 2. slagverk, tölva og bassi) sem ég þarf að flytja í næstu viku. Þrátt fyrir þessar annir þarf ég að vinna vel í sólóverkunum mínum. Janúar á að heita skemafrí (engin kennsla á aðalhljóðfæri) en kennarinn minn vill ekki virða það og heldur tíma eins og venjulega.
blæ í bili.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli