fimmtudagur, janúar 22, 2004

Dramatíkin stígur

Eins og áður hefur komið fram er ég að reyna að minnka sykurneysluna. Maður er hræddur um að fá áunna sykursýki ef maður heldur áfram í sama fari. Nú hef ég seinustu viku og þessa haft það þannig að föstudagskvöld,laugardagar og sunnudagar eru nammidagar en aðra má ég ekki snerta nammi eða sykurgos.

Það erfiðasta í þessu er þegar maður er ný búinn að borða hádegismat eða kvöldmat og er saddur og sæll. Þá vill maður kaffi (sem ég ætla sko ekki að hætta að drekka) og súkkulaði. En nú lítur út fyrir að örlögin séu mér til aðstoðar. Fyrir tveim dögum síðan þegar ég var í hléi á óperuæfingu fékk ég mér heitan mat í kantínunni. Eftir það var ég alveg að drepast mig langaði svo mikið í. Ég hreinlega svitnaði og fann hvernig pirringurinn æstist upp í mér. Ég stóð því upp og náði mér í einn bolla af kaffi, við afgreiðsluborðið var svo kassi með mini ritter sport súkkulaði. Ég borgaði kaffið og horfði girndaraugum á súkkulaðið. Síðan tók ég eitt upp og handfjatlaði það og hugsaði "þetta er svo lítið hvort eð er"........

......í hausnum á mér varð þögn.......


......svo hugsaði ég "andskotinn hafi það ég kaupi eitt", í því snéri afgreiðslumaðurinn sér við og fór að spjalla við konu. Við það henti ég súkkulaðinu aftur í kassann og hélt mína leið með kaffibollann.


Í gær var ég svo eftir æfingu orðinn pirraður með lágan blóðsykur. Ég átti að fara í spilatíma 2 tímum seinna. Þegar ég var svo kominn í skólann að æfa mig gat ég ekki hugsað um annað en súkkulaði. Ég átti frían kaffibolla inni (með klippikort, 10. hver frír)á BARESSO sem er besta kaffihúsakeðja sem ég veit um. Það passaði svo vel að fá sér eitthvað með kaffinu. Ég sló til og strunsaði út og í áttina að Baresso, þegar þangað var komið varð eitthvað vesen með að stimpla rétt inn svo þessi yrði frír. Ég var búinn að horfa á litla súkkulaðiþríhyrninga með núgatmulningi á. Þegar loksins var búið að leiðrétta í kassanum og ég ætlaði að biðja um súkkulaðið sagði afgreiðslukonan ákveðin (hún var sekúndubroti á undan mér) að ég ætti fara að öðru afgreiðsluborði þar sem maður fær svo kaffið afgreitt. Ég sagði því ekkert og fór.

Ég hef sem sagt átt mínar dramatísku stundir í þessari viku.

Engin ummæli: