Riddari bloggsins er kominn aftur...
Líkamsræktin gengur hægt. Það er nú aðalega sökum anna en maður er stöðugt á tónlistar-æfingum þessa dagana. Britten óperan nálgast frumsýningu og á morgun er fyrsta æfing í gryfjunni með proppsi og tilheyrandi. Þetta verður frekar flott og litrík sýning þannig að ég hlakka til að sjá þetta. Ég verð líklegast að taka með spegil á æfinguna en ég mun snúa baki í sviðið :( því miður.
Það sem er aðalega að gerjast í hausnum á mér er hvort ég eigi nokkuð að vera að halda uppi svona bloggi. Ég hef náttúrulega ekki verið sérlega duglegur við það en mér finnst hreinlega líf mitt ekki nógu og spennandi og ég ekki nógu og góður penni til að geta gert daufan hversdagsleikan að skemmtun. Svo er það nú líka þannig að sumt vill maður hafa út af fyrir sig, ég meina afhverju er maður að setja sig svona persónulega á netið. Þetta gæti orðið manni að falli einn daginn. T.d. ef maður væri morðingi og segði alltaf frá nýjustu drápum sínum hér.
það væri gott sönnunargagn fyrir löggimann
sem myndi taka mann
og setja mann ofaní rassvasann.
En þar sem ég frem mína glæpi í gegnum tónlist og það stendur fátt um það í lögunum þá sleppur þetta kannski.
Ég er t.d. mjög oft að fremja 5.strengs glæpinn (þ.e. að spila áttund neðar en skrifað ef það þýðir að ég fæ að spila á 5.strenginn). Vonandi er bassalöggan ekki að lesa þetta.
Það stóð til hjá mér að halda stutta tónleika í kirkju hér í Köben en það fékk ég ekki. Ég sótti sem sagt um að vera í tónleikaröð á vegum skólans en það er greinilega eftirsótt og ég verð þá bara að reyna aftur á næstu önn. Hins vegar reyni ég að halda tónleika í sumar á Íslandi sem verður gaman. Ef Elfa verður á landinu á sama tíma og ég þá munum við deila með okkur tónleikum. Helst áður en Ísafold hefur starfsemi sína.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli