miðvikudagur, nóvember 26, 2003

BUKOWSKY

Ég sem ætlaði að mæta kl.07:00 mætti kl.08:30 í skólann. Það er nú samt alveg snemma, en þegar maður setur sér markmið er maður ekki ánægður með neitt minna. Ætli það sé ekki þess vegna sem maður er aldrei ánægður með neitt sem maður spilar. Kannski hef ég of miklar hugmyndir um hve vel ég vil spila, og þó, það getur nú varla verið slæmt.

Í dag er nammilaus dagur, megi þjóðir heimsins biðja fyrir mér.

Ég er að lesa frábæra bók þessa dagana eftir Charles Bukowsky sem heitir "Factotum". Eins og "Post office" sem er önnur bók eftir hann (sem ég hef lesið) fjallar hún um byttu. Bukowsky var það víst sjálfur og teljast bækur hans til sjálfsævi-skáldsagna! Það er ótrúlegt hvað ég get haft gaman af að lesa um mann sem gerir ekkert. Það sýnir bara hvað herra Bukowsky er mikill ritsnillingur. Á köflum er hún líka frekar dónaleg og jafnast örugglega á við tímarit sem heita glaumgosinn eða tígulgosinn eða hvað þetta nú heitir. Manni blöskrar hreinlega, eða gæti gert það ef maður væri ekki pervert inn við beinið. :) Í þessari bók ferðast söguhetjan mikið á milli borga og fylkja og hver kafli byrjar á því að hann segir frá þeim bar sem er næstur nýja hótelinu, hve langt hann sé í burtu og hvernig bar þetta sé. Þetta les ég og get ekki hætt. Merkilegt!

Tónlistasögukennarinn minn var veikur í dag sem gaf mér mikilvægan frest til að greina verk eftir Schönberg. 12 tóna "stærðfræði"verkefni. Hmm! Mér leiðist það hvað hann greinir mikið, tónlistarsaga er fag sem ætti að vera meira sögulegt og minna tónfræði. Hann eyðir yfirleitt um 60% tímana í greiningar og maður er alveg að sofna því hann kemur þessu mjög óspennandi frá sér. En þetta er síðasta árið í tónlistarsögu þannig að ég þarf ekki að vera mikið lengur.

Jæja, þrátt fyrir að klukkið sé um hádegi tókst mér samt að skrifa eitthvað, það var nú gott, ekki vil ég bregðast dyggum aðdáendum.

Engin ummæli: