Upprunanlega planið var að spila tónleika í Tel Aviv, Bethlehem, Jerusalem, Ramallah og Nablus en vegna skipulags og öryggis var hætt við Ramallah og Nablus. Hljómsveitin á að vera dönsk þótt það hafi nú bara 4 verið danskir en eins og þið vitið kannski þá voru skopteikningarnar af Muhameð birtar í öllum dönsku blöðunum á meðan við vorum úti, en það breytti engu, varð ekki var við neitt í tengslum við það.
Við gistum á hóteli í Bethlehem sem er svona um 100 metrum frá fæðingarstað Jesú Krists. Þetta landsvæði er mjög lítið svo keyrsla til Tel Aviv tekur einn og hálfan tíma og til Jerúsalem er ekki nema 40 mínútur.
Það er mjög skrítið að vera á stað þar sem trúarbrögð eru svona mikilvægur þáttur í daglegu lífi og þar sem svona mörg trúarbrögð búa saman. Þetta myndar auðvitað ákveðna spennu, spenna sem ég hef aldrei fundið áður. Í Bethlehem búa margir Kaþólikar en Múslimarnir eru nú samt í meirihluta.
Eins og margir vita þá var byggður veggur í Berlín, svona veggur liggur nú um allt á þessum svæðum og þeir palestínubúar sem búa Bethlehem geta ekki farið til Jerúsalem sem Ísraelarnir hafa tekið, samt geta Bethlehembúar átt nákomna ættingja og vini í Jerúsalem, þeir geta sem sagt ekki hist lengur. Ísraelarnir eru að kæfa aumingja palestínubúana og maður finnur það að fólk í palestínu er bókstaflega niðurlægt út af þessu. Sumir vilja ekki tala um þetta og aðrir tala um þetta af skömm og vilja flytja sem lengst í burtu frá þessu.
Það viðmót sem ég fékk frá palestínusvæðunum var alltaf jákvætt, hlýtt og vinalegt en í Ísrael leið mér eins og fanga. Löggur í Palestínu eru með byssur en í Ísrael er ekki fæti stígandi vegna hermanna með hríðskotabyssur. En það er auðvitað gott að vera vinur Bandaríkjanna, þeir útvega fín vopn. Nú skil ég afhverju það er svona rosalega mikilvægt fyrir Bandaríkin að ráðast inn í Íran, því Íranir vilja hjálpa palestínubúunum að sigrast á Ísrael. Ísrael er að skapa sér nýja landvinninga á svæðum Palestínu mun hraðar en fólk áttar sig á.
Allt er þetta út af trúmálum, líklegast eru þessi trúarbrögð allt sama stöffið, bara ólík bókarkápa. Það getur ekki verið tilviljun að báðir frelsararnir voru alltaf á sömu slóðum!? Eða hvað?
En þótt öll þessi spenna hafi legið í loftinu þá varð ég aldrei var við neinskonar stríðsástand, það er bara ákveðin kúgun sem fylgir múrnum og svo spenna sem fylgir að nokkur trúarbrögð búi á sama stað. Bethlehem er mjög friðsæll bær sem lifir á túrisma, ég keypti mér m.a. vatnspípu þar, eða þ.e.a.s. fékk ókeypis vatnspípu. Kall nokkur dró mig inn í búðina sína til að reyna að selja mér eitthvað. Ég sýndi vatnspípunni áhuga en var ekki með pening á mér. Hann lét mig fá hana og sagði mér að borga þegar ég gæti, ég vildi helst ekki taka hana en hann vildi ekkert annað en að ég tæki hana. Það vildi síðan þannig til að ég komst aldrei í bæinn aftur eftir þetta og gat aldrei borgað aumingja manninum, hann sem hafði sagt mér allt um það hvað það væri ömurlegt að búa Bethlehem eftir að veggurinn kom. Svo kemur einn norðurlandabúi og svíkur hann :( en það var alls ekki ætlunin.
Eitt af því sem mér fannst sérstaklega gaman var að sjá hús og byggingar með eigin augum, þetta lítur alltaf út í sjónvarpi eins og samanhrúað grjót á sandi. Í raun er þetta mjög fallegur steinn sem er notaður að utanverðu en að innann er steypa eins og við þekkjum hana og loftræstikerfi með hita/kulda og öllum nútímaþægindum. Landisvæðið er fjalllendi svo margar götur eru 45 gráðu halli, og ég er ekki að ýkja, gatan sem leiddi upp að hótelinu okkar var þannig og að fara með rútunu þar niður var aldrei þægilegt, sem betur fer var ekki hálka en það var mikill snjór og slabb einn daginn en það kom ekki að sök.
Maturinn í Palestínu er mjög arabalegur en í Ísrael er eins og vera kominn aftur til evrópu. Fyrstu tvo dagana fengum við hlaðborð með kebab kjöti, Falafel, Hummus og fleiru í þeim stíl og nóg af pítabrauði með...þetta er með því besta sem ég hef fengið og allir voru á því að þetta væri 100 sinnum betra en í evrópu og fólk var farið að dreyma um að flytja þangað. Eftir 8 daga af kebab, falafel og hummus vorum við öll farin að dreyma um Evrópu aftur...þetta var sem sagt það eina sem var hægt að fá. Ég man þegar við vorum að segja gestgjafanum okkar fyrsta kvöldið hvað maturinn væri æðislegur og hann sagði með svona léttum ógeðissvip að þetta væri nú bara hversdagsmaturinn. Aumingja þeir að éta ekkert annað alla ævi.
Veðrið er eiginlega svoldið íslenskt, það skiptist nefninlega á að vera frost með snjókomu og 25 stiga hita í brennandi sól. Ótrúlegur dagamunur á veðrinu.
Annars mæli ég með að fara á þessar slóðir, það er ekki hægt að segja frá þessu, maður verður að upplifa þetta svæði. Ég er ótrúlega feginn að ég dreif mig, hefði aldrei viljað missa af þessari upplifun.
2 ummæli:
Gott að heyra að þú komst heim heill á húfi og með reynslu í bakpokanum fyrir lífið, en þó að ég hafi hvatt þig til að fara er ég ekki viss um að mig langi á þetta "stríðshrjáða" svæði.
kv."tengdó"
Það er ekkert stríð þarna, bara ekki fara á Gaza svæðið...þar er mikil neyð.
Skrifa ummæli