sunnudagur, janúar 13, 2008

Hvítlaukur er góður

Í gær fórum við Guðný á tónleika með NDR hljómsveitinni. Við keyptum ódýr sæti og sátum á stað þar sem maður sá ekki nema þriðjung af hljómsveitinni, í hléi fundum við laus sæti á besta stað og sátum þar eftir hlé. Við höfðum borðað pastarétt í kvöldmat og notað í hann 2 lítil hvítlauksrif. Maðurinn fyrir aftan okkur á tónleikunum (eldri maður með grátt hár og mjög sítt að aftan, frekar spes) talaði hátt um það áður en seinni hlutinn byrjaði að hann hefði átt að segja að sætin væru upptekin því það væri svo mikil hvítlaukslykt af okkur að það væri ekki hægt að sitja nálægt okkur. Hann blaðraði svona við konuna sína þannig að við og næstu sætaraðir heyrðum en sagði aldrei neitt beint við okkur. Síðan byrjuðu tónleikarnir og hann fór að blása í hnakkann á okkur alveg frá byrjun til enda. Það var engin pása eða hlé í verkinu.

Þegar karlinn byrjaði að tala um hvítlaukinn fékk ég samviskubit og hefði viljað biðjast afsökunar en þar sem hann sagði aldrei orð við okkur og enginn annar kvartaði undan þessu (plús að þetta var alls ekki mikill hvítlaukur sem fór í matinn) og svo lét hann eins og fífl þá vorkenndi ég honum bara. Hann var greinilega ekki á tónleikum til að njóta tónlistarinnar heldur af því að það er svo fínt að vera á tónleikum. Honum hundleiðist örugglega á svona tónleikum og nú loksins fékk hann verkefni. Verkefnið að eyðileggja tónleikana fyrir sér og öðrum með barnalegu bulli.

Eftir að verkinu lauk og búið var að klappa í svoldin tíma hljóp hann út, annaðhvort til að komast undan lyktinni ógurlegu eða til að þurfa ekki að face-a okkur eftir þessi barnalegu fíflslæti. Ég var alveg að undirbúa mig undir að rífast við kallinn en var eiginlega bara feginn að hann drullaði sér út, nennti ekki að reyna að rífast á þýsku, get það eiginlega heldur ekki.

En niðurstaðan er að hvítlaukur er af hinu góða og sítt að aftan er af hinu vonda. Ég meina, hvað ef við hefðum borðað rétt á veitingastað sem innihélt hvítlauk...ótrúlegt að láta svona!

Engin ummæli: