Það virðast margir leggja inn skilaboð þegar ég segi frá kennslunni svo það er þá eins gott að fylgja þessari velgengni eftir. :)
Ég átti samkvæmt stundaskrá að kenna tveimur nemum þennann dag en annar neminn (stúlka) var veikur. Sá sem er yngstur var sá sem mætti. Stráksi er 14 ára gamall og finnst greinilega mjög mikilvægt að vera kúl, að tapa aldrei kúlinu. Ég spurði hann hvað Mads hefði gert með honum og hann sagði að þeir hefðu spilað skala (B-dúr) og þóttist ekki vita hvað skalinn heitir því það væri náttúrulega nördalegt. Ég spurði (mjög illa orðað, ég viðurkenni það) hvort hann vildi (VILDI) ekki spila skalann fyrir mig. Hann svaraði með spurningu, "á ég að spila hann af því þú segir það eða má ég segja nei", þá sagði ég hneikslaður, "kommon spilaðu nú bara skalann". Hann spilaði hann og byrjaði síðan að niðurlægja sjálfann sig strax á eftir. Alla kennslustundina tönglaðist hann á orðunum, get ekki, vil ekki, nenni ekki. Ég sýndi honum erfiðan stað úr hljómsveitarverki sem hann á að spila í samspilinu sem allir taka þátt í og þetta var allt saman ómögulegt (að honum fannst). Ég ákvað að segja honum mjög nákvæmlega hvað hann ætti að æfa heima og hve lengi. Ég gaf honum mjög létt verkefni, hann átti að spila þennann blessaða B-dúr skala og laga handstöðuna sem ég hafði sýnt honum í tímanum, 10 mínutur á dag...ekkert meira. Þá þóttist hann ekki vera með bassa heima en yfirkennarinn hafði sagt mér að allir nemarnir væru með hljóðfæri heima svo ég sagðist vita betur, þá varð hann vonsvikinn. Kom með fleiri afsakanir og get ekki orðin.
Ég hef ákveðið að beita inspírasjóns therapíu Kontrans á þetta case. Ég útset sjálfur kennsluefnið og hef það þeim mun skemmtilegra og það verður heilmikið af dúettum. Best að spila með honum, líka til að hann heyri reglulega spilað almennilega á bassa. Fyrsta sem ég hef gert er að útsetja James Bond theme fyrir tvo bassa, hans partur er hlægilega auðveldur en samt nóg fyrir hann. Því miður verð ég samt líka að reyna að fá hann til að spila leiðinlegar æfingar svo hann læri að spila eftir nótum.
Unglingar eru örugglega erfiðastir þegar kemur að kennslu, sérstaklega þar sem þetta er skylda og ekki frjálst val. Eina valið er hljóðfærið en hljóðfæri verða þau að læra á.
Mads sagði mér að þetta væri sá erfiðasti...sem betur fer!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli