Ég hef ákveðið að láta öll blogg í framtíðinni heita nöfnum í anda Bents. Annars spurði ég karlinn í dag hvort hann hefði skrifað eitthvað fyrir bassa og hann játaði því. Ég ætla því að kíkja á það, spennó. Ef það er eitthvað sem ég ræð við þá hugsa ég að ég muni hafa það með í jólaprógramminu. Ég spurði hann hvað stykkið heitir og það var eitthvað rómantískt um fjall, ég brosti óvart framan í hann því mér fannst þetta svo fyndið að vera svona ofur rómantískur....vonandi móðgaði ég hann ekki. Eva ætlar svo að athuga hvort Hosokawa geti umskrifað eitt verk sem er upprunalega fyrir harmonikku og selló svo að við getum spilað það.
Á meðan ég var að skrifa þessa klausu hringdi síminn og það voru vinir mínir hjá Berlinske Tiden sem hringja í mig reglulega til að spjalla um áskriftir og fl. Í þetta sinn sagði ég, "það er prisipp hjá mér að kaupa ekki dagblöð, þú getur alveg spurt mig næstu 15 mínúturnar en það verður tímaeyðsla fyrir þig og mig"...hann svaraði "nú! þá bíð ég þig vel að lifa, vertu blessaður" Þýðing Kristján Orri Sigurleifsson Ég hef aldrei náð að losna svona hratt við símasölumann.
Annað í fréttum er BERLIN - Við fórum nokkrir bassadrengir (eins og þið vitið) til Berlínar. Þar gisti ég hjá henni Helgu fiðlustrumpi og snillingi. Þetta var alveg einstaklega vel heppnuð ferð, fyrst byrjuðum við á að heimsækja bassasmið. Hann átti ekki nema um 40 bassa á lager til sölu....þetta var eins og fyrir börn að koma inn í leikfangabúð. Við héngum þar í 3-4 tíma að prófa bassa. Eftir það fórum við til bogasmiðs sem átti nú ekki mikið spennandi, ég sýndi honum bogann minn og honum leist vel á hann en sagði það með trega. Hvað sem það nú átti að fyrirstilla. Um kvöldið fengum við okkur svo ekta (ógeðslegan) þýskan mat. Schnittzel og Wurst og slíkt ógeð og bjór með enda oktober"fest". Svo kom Helga til okkar og við héldum áfram í bjórsötri.
Næsta dag skoðuðum við okkur um í Berlin og keyptum okkur miða á Deutshe Opern á Nabucco eftir Verdi. Tónlistin og fluttningurinn var mjög góður. Ég hef aldrei sitið í svona góðum sætum enda heyrði ég alltaf í söngvurunum. Við keyptum miðana klukkustund fyrir sýningu sem gaf afslátt og svo sýndum við skólaskýrteini og það lá við að við fengjum borgað fyrir miðana og það fyrir miðju á þriðja bekk. Það sem var samt aðeins of flippað fyrir mig var uppsetningin. Þarna voru meðal annars býflugur sem dilluðu sér í takt við aríur og gaur sem er ekki í upprunalegu óperunni og lék bara og skrifaði í fartölvu það sem hann hugsaði en því var svo varpað á skjá....allt saman mjög langt frá upprunalegu sögunni. Ég skemmti mér samt mjög vel.
Á meðan dvöl minni í Berlín stóð fékk ég símhringingu og var beðinn um að spila með sinfóníunni í Færeyjum, Feneyjar hefði verið meira spennandi en samt! Það þýddi sem sagt flug til Færeyja daginn eftir komu frá Berlín. Nóttina fyrir flugið frá Berlín til Köben sofnaði ég ekkert, var bara andvaka. Ég var því mjög þreyttur þegar ég var svo aftur kominn á flugvöllinn til að fara til Færeyja morguninn eftir. Helga stóð sig eins og hetja, hún lét sig hafa það að ganga út um allar trissur til að vera gestrisin. Hún fær miklar þakkir fyrir það.
Færeyjar voru snilld. Benni stjórnaði og prógrammið var Beethoven no.5, píanókonsert no.1 og Egmont forleikurinn. Það var gaman að spila með sveitinni sem er á svona semipro standard. Það besta við ferðina var þó allt djammið og allt fólkið sem ég kynntist. Að djamma í færeyjum er eins og að djamma á Íslandi...Færeyingar eru alveg eins og við...geðveikt skemmtilegir. :) Það komu nokkrir frá Óperuhljómsveitinni í Köben til að hjálpa til og því fólki kynntist ég sem gæti komið sér vel, annars er það fólk ótrúlega frábært og mórallinn í Óperuhljómsveitinni er líka mjög góður. Þá kynntist ég öllum þeim sem voru á mínum aldri, djammað til kl.6 á nóttunni og sofið í 3 tíma....maður var yfirleitt orðinn hress einhverntíma eftir æfingar ;) Unga fólkið var rosalega skemmtilegt og ég held ég hafi sjaldan hlegið eins mikið og í þessari ferð. Vonandi fæ ég annað tækifæri til að spila með þarna.
Tríóið mitt er merkilegt! Nú er það þannig að Alexandre Zapolski (kennarinn) spilar á fiðlu í tímunum í stað fiðluleikarans. Fiðluleikarinn okkar hún Anne (sem var í O.N. 2001 - Hún biður alltaf voða vel að heilsa Ellu Völu og ég gleymi að skila því aftur og aftur) er að fara í diplompróf og vill ekki spila í tríóinu fyrr en diplomið er búið. Síðan var píanistinn að segja að hann hefði of mikið að gera og þyrfti að minnka við sig, hann vildi því hætta þar til Anne er tilbúin til að byrja. Þá sagði Alexandre "Nú! en þá getum við spilað dúó" hahaha...þetta endar með honum einum hugsaði ég. En svo sagði ég við píanistann að ég vildi frekar fá annan píanista og halda áfram að fá tíma en að bíða eftir Anne, þá hætti hann við og ákvað að hætta í einhverri annarri grúppu frekar.
Ég nenni ekki að skrifa meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli