þriðjudagur, maí 11, 2004

Hver er tilgangur gagnrýni?

Það hefur myndast mikil umræða á blogginu hans Jónasar Sen útfrá gagnrýni hans á tónleikum ítalskrar "undrastúlku" sem spilaði bæði á píanó og fiðlu og er víst voða voða klár í tónsmíðum líka. Mér hefur persónulega alltaf líkað vel við þann kjark sem Jónas hefur, að þora að segja sannleikann (þótt afstæður sé). Einhverjum finnst að maður eigi að halda því út af fyrir sig ef eitthvað var lélegt en skrifa um það góða. Ég skil ekki þá skoðun en er ekki mergur málsins að skilgreina tilgang gagnrýni?

Ég skil vel tilgang bíómyndagagnrýni, ég get oft stuðst við slíka gagnrýni til að vita hvort ég hafi áhuga á myndinni eða ekki. Þar kemur fram hvernig leikararnir standa sig og hvort það sé eitthvað í söguna eða tækniatriði spunnið. Hins vegar get ég alveg haft mjög gaman af mynd sem fær lélega gagnrýni og það er ekki alltaf jafnvægi á milli gagnrýni atvinnumannsins og áhorfendans.

En tilgangur tónleikagagnrýni getur ekki virkað alveg eins og í kvikmyndaheiminum því tónlist er "performing" list og byggir líka á dagsforminu, kvikmyndin breytist ekkert. Ég get ekki verið viss um að ef einhver fær stjörnudóma í blaðinu að sá hinn sami muni brillera aftur á næstu tónleikum og öfugt. Kannski á maður ekki að horfa á litlu myndina heldur þá stóru, þ.e. að þegar einhver hefur haldið marga tónleika og fær nánast alltaf góða eða slæma gagnrýni þá geti fólk dæmt eftir því hvort það telji sig hafa áhuga á tónleikum með viðkomandi. Hver er tilgangurinn, getur þú hjálpað mér í þessari leit?

Engin ummæli: