sunnudagur, apríl 02, 2006

Bréf til Franz Hofmeister

Vínarborg -Janúar 1801

Bréf yðar, besti bróðir og vinur, vakti mér mikla ánægju, og færi ég yður innilegar þakkir fyrir þá velþóknun sem þér hafið sýnt mér og verkum mínum í hvívetna. Vona að ég sé þess verðugur. Mér þótti líka vænt um að heyra um framtakssemi yðar og vona, að verði listaverk metin til fjár, komi það fremur sönnum og heilladrjúgum listamönnum en andlausum listmöngurum til góða. - Að þér hafið í hyggju að gefa út verk Sebastians Bach gleður hug minn og hjarta, því ég hef barist fyrir hinni háleitu og stórfenglegu list þessa ættföður allrar velhljómunnar og vonast til að sjá þau sem allra fyrst. Ég óska þess einlæglega að úr þessu verði jafnskjótt og boðskapurinn berst um að hilli undir hinn gullna frið og að ég verði þess megnugur að leggja mitt af mörkum, þegar þér safnið áskrifendum til útgáfunnar...

Varðandi hin eiginlegu viðskipti okkar vil ég samkvæmt beiðni yðar taka fram eftirfarandi: Að þessu sinni býð ég yður föl þessi verk: septett (sem ég áður hefi nefnt við yður í bréfi) á 20 dúkata, sinfóníu á 20 dúkata, konsert á 10 dúkata, mikla einleikssónötu á 20 dúkata. Þessi sónata hefir þvegið sér í framan, bróðir minn kær...! Upphæðin yrði þá 70 dúkatar fyrir öll þessi fjögur verk. Ég þekki ekki annan en Vínarborgar-dúkata og hefi enga hugmynd um hve mörgum dölum í ykkar mynt þeir jafngilda, enda mér alveg óviðkomandi, þar sem ég er hvorki reikningsheili né samningamaður. Hér með er þessu beiska hlutverki lokið. Ég kalla það svo, af því að ég vildi óska að öðruvísi væri að farið í þessum heimi. Það ætti að vera til stórverslun fyrir list sem tæki við listaverkum og fengi fyrir þau greitt það sem hver og einn þarf að fá. Þá yrðu þeir að vísu að vera hálfgerðir kaupahéðnar og hvernig skyldi það eiga við þá? - Drottinn minn dýri - það yrði beiskt svo ég noti það orð enn einu sinni. Hvað bolana í Leipzig snertir, mega þeir baula fyrir mér, þeir munu að vísu engan gera ódauðlegan en heldur ekki bægja ódauðleikanum frá þeim sem til hans eru kvaddir af Apolloni.

Megi himinninn blessa yður og félaga yðar. Ég hefi verið lasburða um hríð og lítt til þess fallinn að festa nótur á blað, hvað þá bókstafi! - Ég vona að okkur gefist tækifæri til að fullvissa hvor annan um vináttu og ég um hollustu sem bróðir og samherji.

L. v. Beethoven

Engin ummæli: