Nammibindindið er farið út um buskann. Mamma kom í heimsókn í helgarferð og kom með íslenskt nammi sem er ómótstæðilegt. Kúlusúkk og Freyju lakkrís draum, nammi namm.
Á morgunn fer ég í undirleikstíma, ég hlakka til þess. Ég er bara búinn að fara í einn slíkan með verkin mín (fyrir tónleika eftir viku) og þá kom í ljós að píanónóturnar fyrir annað verkið voru ekki alveg í samræmi við bassapartinn. Ég þurfti því að skrfa eina blaðsíðu út sjálfur, ég vona bara að það hafi verið í lagi og þetta gangi upp á morgunn, ég nenni engu veseni með þetta. Ég spila sem sagt 2 verk á tónleikunum og hlakka nú bara til þess.
Guðrún Dalía er búin að samþykkja að spila með mér á tónleikum á Íslandi í sumar. Tónleikaplan mitt fer bráðum að smella saman. Nú þarf Elfa (fiðla) að redda sér píanista og ég að redda tónleikastað og dagsetningu, þegar því er lokið er pottþétt að úr þessu verði. Þá er spurning um hve mikið maður muni auglýsa, hvort maður geri plaköt?
Annars hlakka ég til sumarsins á Íslandi. Það sem hefur verið erfitt við heimsóknir til Íslands hingað til er hljóðfæraleysið en þar sem ég ætla að halda tónleika og spila í Ísafold tek ég gripinn að sjálf sögðu með næsta sumar.
Ég fékk styrk frá A.P.Møller sem mun koma sér vel í bogakaupum. Það er bara svo helv. erfitt að finna boga. Það er fyrir það fyrsta ekki mikið úrval hér á Norðurlöndunum og svo er bara erfitt að taka ákvörðun með svona dýran grip sem er ekki seldur aftur í flýti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli